Fyrr á þessu ári var heimildarmyndin Draumar, Konur & Brauð frumsýnd við mikinn fögnuð. Myndin fjallar í grunninn um konur með áherslu á drauma þeirra og dagdrauma. Til að binda saman sögur þeirra er söguþráður sem byggir að hluta á sannleikanum en þar leika nokkrar konur sjálfar sig á kómískan hátt. Við fylgjumst með listakonu og líffræðingi fara saman hringferð um landið, hvor með sitt erindi. Á vegi þeirra verða fimm íslenskar konur sem eiga það sameiginlegt að reka kaffihús utan höfuðborgarsvæðisins. Þjóðsögur og minni vakna til lífsins þar sem tónlist fer með stórt hlutverk. Frásagnarmátinn er í anda töfraraunsæis og hugmyndafluginu er gefinn laus taumur. Hápunkturinn sögunnar er kökukeppni á Sólstöðuhátíð og því fannst okkur vel við hæfi að fá leikstjóra myndarinnar í viðtal í kökublaðið okkar.