Íþróttafréttakonan Kristjana Arnarsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn 30. júní síðastliðinn. Hún átti „ævintýralega meðgöngu“ eins og hún orðar það sjálf og fæðingin var líka dálítið skrautleg, að minnsta kosti í aðdragandanum, en allt fór vel að lokum og heilbrigð stúlka kom í heiminn. Sambýlismaður og unnusti Kristjönu, Kristján Franklín Magnús, er atvinnumaður í golfi og litlu mátti muna að hann næði ekki heim í tæka tíð fyrir fæðingu dótturinnar þar sem hann var að keppa í úrtökumóti fyrir Opna breska meistaramótið. Dóttirin, Rósa Björk, hefur aðeins látið foreldra sína hafa fyrir sér og öll gömlu, góðu húsráðin á borð við að vera með ryksuguna í gangi og rennandi vatn úr krana, verið notuð. Blaðamaður settist niður með Kristjönu á kaffihúsi á Kársnesinu í Kópavogi dag einn í ágúst en sú stutta var í pössun hjá ömmum sínum á meðan.