Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð er að eigin sögn ekki mikill bakari. Viljinn er sannarlega fyrir hendi en árangurinn ekki alltaf í takt við erfiðið. Það kemur þó ekki að sök enda er henni margt annað til lista lagt og hún skarar heldur betur fram úr á því sviði sem hún hefur lagt fyrir sig, í tónlistinni. Þar hefur hún verið sérstaklega afkastamikil í ár. Í mars gaf hún út plötuna Frá mér til þín með átta frumsömdum lögum og þann 22. nóvember síðastliðinn sendi hún síðan frá sér nýja jólaplötu sem hún vann í samstarfi við Magnús Jóhann píanóleikara. Draumurinn er að gera tónlist sem rennur ekki út og hægt er að hlusta á um ókomna tíð.