Þuríður Helga Kristjánsdóttir er búsett á Akureyri en hún fluttist norður með fjölskyldunni sinni árið 2016. Ástæðan fyrir flutningunum var nýtt starf þar sem hún tók við stöðu framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar. Hún gegndi því starfi í sex ár, eða þar til hún sagði því lausu vegna þess að hún vildi öðlast aukið jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Hún fann ákveðna köllun til þess að vinna meira með núvitund en hún hafði stundað jóga og hugleiðslu frá því að hún var unglingur. Þuríður hafði þá lokið kennaraþjálfun í bæði núvitund og jóga við Mindfulnessnetwork hjá Bangor University og jógakennaranámi við Nepal Yoga Academy. Hún segist finna það á eigin skinni hvað hugleiðsla hefur jákvæð áhrif á líðanina og hversu mikið hana langar að miðla þeirri reynslu og þekkingu til annarra.