Svanhildur F. Jónasdóttir, eða Svana eins og hún er oftast kölluð, starfar sem aðstoðarverslunarstjóri í Evu ásamt því að sjá um samfélagsmiðla fyrir verslunina. Samhliða því er hún hóptímakennari hjá World Class. Hún hefur haft áhuga á tísku síðan á unglingsárunum.
„Ég gleymi því aldrei þegar ég ásamt Beggu, minni allra bestu vinkonu, versluðum okkur notaðar, sjúskaðar og rifnar Levi’s gallabuxur í Spútnik sem þá var staðsett í kjallaranum við Vesturgötu 3. Við vinkonurnar vorum hæstánægðar með þessi kaup en sjúskaðar margnotaðar gallabuxur vöktu ekki eins mikla hrifningu hjá foreldrum okkar; pabbi vinkonu minnar var viss um að einhver hefði dáið í þessum buxum og einmitt þess vegna hafi þær verið til sölu,“ segir Svana og hlær dátt.