Föstudaginn 30. janúar frumsýndi leikhópurinn Marmarabörn nýtt íslenskt verk á stóra sviði Borgarleikhússins. Um er að ræða síðasta hlutann í hamfara-þríleik hópsins en fyrri sýningarnar, Að flytja fjöll í þremur atrennum og Eyður, hlutu mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda og hafa verið sýndar víða um heim. Nýjasta verkið, Árið án sumars, er rómantísk hrollvekja sem fjallar um vináttu og veður og er innblásið af raunverulegum atburðum sem áttu sér stað árið 1816 þegar höfuðskáld Rómantíkurinnar ætluðu sér að sleikja sólina við Genfarvatn en þurftu oft að verja tíma innandyra vegna veðurs. Ýmis bókmenntaverk urðu til í þessari afdrifaríku sumardvöl og má þar nefna Frankenstein eftir Mary Shelley, Vampíruna (e. The Vampyre) eftir John Polidori og sum þekktustu ljóð Byrons lávarðar. Við náðum tali af einum meðlim Marmarabarna, dansaranum og danshöfundinum Katrínu Gunnarsdóttur, og fengum hana til að segja okkur betur frá þessari spennandi sýningu.