Alveg er það merkilegt hvað rauðu flöggin geta farið fram hjá manni. Eða kannski vill maður bara ekki sjá þau og leyfir þeim að blakta þangað til flaggið er orðið rifið og tætt og lítið stendur eftir. Þegar maður svo loksins áttar sig á því sem hefði átt að fá mann til að hlaupa burt úr aðstæðunum, eins hratt og fætur toguðu, situr maður eftir með samviskubit og skilur ekki í því hvernig maður gat látið fara svona með sig. „Af hverju sá ég þetta ekki? Hvernig gat ég verið svona vitlaus?“ En það sem maður er farinn að þekkja vel og finnst orðið hversdagslegt kveikir ekki á neinum viðvörunarbjöllum.