Ólöf Þóra Sverrisdóttir og Oddur Eysteinn Friðriksson áttu von á sínu fyrsta barni saman þegar skoðun hjá ljósmóður á 36. viku meðgöngu sýndi að galli var á höfði barnsins og frekari rannsóknir leiddu í ljós að engar tengingar voru á milli heilahvela. Hræðsla tók við hjá foreldrunum vegna fæðingarinnar og framtíðar barns þeirra. Móeiður Vala, eða Móa, er ein örfárra barna í heiminum með sína greiningu og heilkenni, en um leið ein í hópi fjölmargra Einstakra barna hér á landi. Í dag er Móa orðin rúmlega ársgömul og sýnir með hverri þroskaframför að hún er lítið kraftaverk.