Bragi Ólafsson, ljóðskáld, leikskáld, rithöfundur og tónlistarmaður, var að gefa út bókina Innanríkið – Alexíus sem í grunninn byggir á hans eigin endurminningum. Bragi er með verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands, varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og lærði spænsku í Háskóla Íslands og á Spáni. Hann starfaði um árabil sem tónlistarmaður og þá lengst af með hljómsveitunum Purrkur Pillnikk og Sykurmolunum. Hann vann í fimm ár á auglýsingastofu sem hugmynda- og textasmiður, en hafði áður unnið í póstþjónustunni, plötubúð, banka og sem félagi í útgáfufyrirtækinu Smekkleysa. Fyrsta bókin hans kom út hjá Smekkleysu fyrir þrjátíu og átta árum og núna er hann aftur kominn þangað með Innanríkið – Alexíus, þótt hann hafi reyndar gefið út nokkrar smærri bækur hjá félaginu í millitíðinni. Hann hefur gefið út níu skáldsögur, þeirra á meðal Gæludýrin, Samkvæmisleiki, Sendiherrann og síðast Gegn gangi leiksins. Hann hefur einnig sent frá sér nokkur smásagna- og ljóðasöfn og skrifað leikrit fyrir svið og útvarp. Meðal leikrita hans eru Belgíska Kongó og Hænuungarnir. Bragi er fæddur í Reykjavík og hefur alltaf búið þar, með hléum, og segist líta á þessa litlu borg sem sinn gagnagrunn og baksvið í nánast öllu sem hann skrifar.