Í einstöku húsi við Elliðavatn býr uppeldisfrömuðurinn Margrét Pála með fjölskyldu sinni. Húsið er lágreist og fallegt og á lóðinni kennir ýmissa grasa; þar er gróðurhús, trampólín og vinnustofa en einnig hænsnakofi þar sem tíu hænur eiga sér aðsetur. Á síðasta degi vetrar ber blaðamaður að dyrum á þessu heillandi heimili og er boðið inn í betri stofuna eða Herðubreiðarstofuna eins og herbergið hefur verið nefnt. Nafnið er viðeigandi því fjölmörg málverk af fjallinu fagra prýða veggina. Það er ekki fyrir tilviljun en Herðubreið var útsýni æsku húsráðanda, æsku sem var frábær og erfið í senn.