Óhætt er að segja að söng- og leikkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir hafi skotist upp á stjörnuhimininn með ógleymanlegri frammistöðu í söngleiknum Elly sem sýndur var í Borgarleikhúsinu við góðar undirtektir. Katrín segist hafa orðið dálítið sorgmædd við að kveðja Elly þegar sýningunum lauk þótt það hafi líka verið kærkomið að hvíla sig á álaginu sem fylgi því að halda uppi svona stórum söngleik. Fyrr í þessum mánuði kom út fyrsta sólóplata Katrínar, Katrín Halldóra syngur lög Jóns Múla, þar sem hún flytur lög Jóns Múla við texta bróður hans, Jónasar Árnasonar. Katrín segist hafa sungið mörg þessara laga frá því hún var lítil stelpa en hún hafi alltaf gaman af gömlum dægurperlum, enda sé hún „ekki deginum yngri en 63 ára,“ eins og hún orðar það sjálf, þótt í rauninni séu um þrjátíu ár í að hún nái þeim aldri…
