Endurhæfingarmiðstöðin Ljósið er starfrækt við Langholtsveg 43-47 og virðist í fyrstu aðeins vera eins og hvert annað íbúðarhús. Tekið er vel á móti fólki í rólegu og fallegu umhverfi, nánast eins og að heimsækja gamlan vin yfir tíu dropum. Ljósið var stofnað árið 2005 og er eina sérhæfða endurhæfingarmiðstöð krabbameinsgreindra á Íslandi. Ljósið varð til fyrir tilstilli Ernu Magnúsdóttur iðjuþjálfa ásamt öflugum grasrótarhópi sem vildi efla endurhæfingarúrræði krabbameinsgreindra á Íslandi.