Förðunarfræðingurinn, hársnyrtirinn og langhlauparinn Rakel María Hjaltadóttir er einstaklega brosmild og lífsglöð manneskja, enda segir hún lífið of stutt fyrir áhyggjur og leiðindi. Lífið hefur þó gengið upp og niður og hún segist hafa fullorðnast fljótt en sé þakklát fyrir reynsluna. Það vakti athygli þegar Rakel María steig fram í fyrrasumar og sagðist standa með þolendum íslensks tónlistarmanns, manns sem Rakel hafði verið í sambandi með í rúm sex ár. Hún segir það hafa verið mikið áfall þegar málið kom upp í fjölmiðlum, sjálfa hafi hana ekki grunað neitt á meðan á sambandi þeirra stóð, en hún hafi verið líkt og á milli steins og sleggju því hún viti að hann sé góður maður þrátt fyrir sína bresti. Kaflaskil urðu hjá Rakel Maríu í febrúar síðastliðnum þegar fiðrildið sem hún segist vera varð að taka ákvörðun um hvort hún ætti að hætta að flögra á milli verkefna eða taka við stórri stöðu hjá 365 miðlum.