Á Íslandi þykir alltaf klassískt og gott að tala um veðrið þegar ókunnugt fólk hittist í samkvæmum. Þegar það umræðuefni er tæmt kemur venjulega spurningin: „Hvað gerir þú?“ Við spyrjum af áhuga og vegna þess að við búumst við að svarið skapi nýjan umræðugrundvöll, eitthvað sameiginlegt sem hægt er að byggja á. Sumum finnst þessi spurning hins vegar óþægileg og að við sem samfélag leggjum of mikið upp úr atvinnu fólks þegar við metum persónuna.