Björn Skaptason, eigandi og stofnandi Atelier Arkitektar, á heiðurinn af arkitektúr og hönnun nýja hótelsins Hótel Reykjavík Saga sem staðsett er við Lækjargötu 12 í hjarta borgarinnar. Í hönnunarferlinu var áhersla lögð á fágun og klassík með tilliti til umhverfisins og nærliggjandi bygginga sem voru í hávegum hafðar. Fornminjafundur frá landnámi tafði framkvæmdirnar en minjarnar verða sýndar á safni hótelsins síðla sumars. Auk nýbyggingar eru eldri hús við Vonarstræti 4, Skólabrú 2 og Lækjargötu 10 hluti af hótelinu sem hafa fengið yfirhalningu og öðlast aftur forna frægð.