Hvað ert þú með á HönnunarMars og hvar? „Ég verð á tveimur stöðum; annars vegar hef ég verið að vinna samstarfsverkefni með Omnom undanfarið og verðum við að kynna það í heimkynnum þeirra á Hólmaslóð yfir hátíðina. Við ætlum að bjóða í ferðalag fyrir bragðlaukana um íslenska náttúru og menningu þar sem súkkulaði og afgangsefni kakóbaunarinnar, sem fellur til við framleiðslu á súkkulaði Omnom, eru í aðalhlutverki. Gestum gefst færi á að smakka súkkulaði sem borið er fram á formum sem unnin eru úr huskinu og vísa í náttúru Íslands sem og hugarheim minn. Markmiðið er að minna á upphaf súkkulaðisins og það ferli sem það þarf að fara í gegnum til að verða að því sem við borðum.