Í gömlu húsi ofarlega á Laugaveginum búa þau Sigrún Karls Kristínardóttir og Árni Már Erlingsson, ásamt kisunni Flóka. Húsið er góður vitnisburður síns tíma, steinsteypt undir funkisáhrifum og hefur að mestu haldist óbreytt frá byggingu þess árið 1931 en það var arkitektinn Þorleifur Eyjólfsson sem teiknaði húsið. Fram kemur í grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 1996 að hann hafi verið einn framsæknasti húsameistari landsins á tímabilinu 1925-1932 og kom á þeim tíma fram með merkar nýjungar í reykvískri húsasmíði. Þá eru 90 ár síðan húsið var byggt og því ekki langt í að það verði friðað. Íbúðin er um 70 fermetrar, þriggja herbergja og hefur eignin tekið ýmsum breytingum að innanverðu síðustu árin. Heimilið er hlýlegt, það er hlaðið myndlist af ólíku tagi sem setur á það sterkan svip.