Söngvaskáldið Una Torfadóttir er orðin flestum kunn en hún hefur á stuttum tíma, og ung að árum, vakið mikla og verðskuldaða athygli í tónlistarsenu Íslands með hugljúfum söng sínum, fagurmótaðri textagerð og blæbrigðaríkum lagasmíðum. Árið sem er að líða var stórt ár fyrir Unu en hún hlaut verðlaun fyrir söng ársins í flokknum popp-, rokk-, rapp og raftónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum, hélt tónleika hvarvetna um landið, meðal annars á Þjóðhátíð, Menningarnótt og á Airwaves, samdi opinbert lag Hinsegin daga ásamt Hafsteini Þráinssyni og leiddi kraftmikinn og eftirminnilegan baráttusönginn í kvennaverkfallinu í október síðastliðnum sem vakti upp gæsahúð hjá viðstöddum.
Una segir að stærsta áskorun sín í dag sé að finna sig aftur í sköpunarferlinu án þess að hugsa út í viðtökurnar þegar afurðin komi loksins út, það geti verið hægara sagt en gert sérstaklega þegar listin sé farin að vekja athygli. ,,Ég vil skilja samfélagið eftir frammi á gangi á meðan ég er að skapa og vera ekki alltaf með almenning í hausnum. Ég þarf að reyna að passa að vera ekki að hugsa um það að búa eitthvað til svo allir verði rosa ánægðir með mig, heldur frekar vil ég einbeita mér að verkinu.‘‘ Jafnframt segir hún mér að persónuleg textasmíðin sé henni ákveðin heilun. ,,Já, það er rosalega heilandi og held það hafi verið Freud, sá umdeildi maður, sem talaði um bjargráð, eða coping mechanism, en flest þeirra eru ekki gagnleg eins og til dæmis flótti og afneitun. En eitt af því sem hann sagði að væri gagnlegt var göfgun, en göfgun er það að taka sína eigin reynslu eða upplifun og setja hana í stærra samhengi. Að göfga tilfinninguna og hugsa bara; ég er ekki fyrsta manneskjan eða síðasta manneskjan í heiminum sem er að upplifa eða lenda í því sem ég er að lenda í og ef ég tala um það sem kom fyrir mig, eða bý til eitthvað úr því, þá get ég hjálpað öðrum sem líður eins til að skilja hvernig þeim líður.