„Gamla blokkin“ á Akranesi reis árið 1955, fyrst fjölbýlishúsa þar. Hún stendur við Langasand og þaðan er stórkostlegt útsýni. Guðríður Haraldsdóttir, prófarkalesari með meiru, eða Gurrí, keypti 99 fermetra risíbúð í blokkinni árið 2006 og lét gera hana upp á síðasta ári. Hún hefur í gegnum tíðina sankað að sér ýmsum skemmtilegum húsgögnum og munum og því óhætt að segja að íbúðin sé einstök blanda af gömlu og nýju. Við fengum að fylgjast með breytingunum hjá Gurrí sem hún segir hafa heppnast afar vel.