Guðrún Aspelund er nýr sóttvarnalæknir. Hún segir margt hafa lærst af COVID-faraldrinum þó að enn sé verið að rýna gögn. Það hafi t.d. komið í ljós hvað hægt sé að gera margt utan spítalans og að stjórnvöld hafi hlustað á lækna og vísindamenn, hér hafi dánartíðni verið lægri en í löndunum í kring og skólar hafi haldist opnir. Hún segir jafnframt að samstarfið við Almannavarnir hafi verið afar gott en að aðgerðirnar hafi líka miðast við að vernda heilbrigðiskerfið og spítala allra landsmanna. Guðrún telur að í framtíðinni megum við búast við aukinni tíðni faraldra, m.a. vegna ferðalaga, vöruflutninga og umhverfismála. Til þess að mæta því verði að ganga hratt í að klára nýjan spítala og auka mannafla.