Sjöfn Evertsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði, lenti í bílslysi þegar hún var komin átta mánuði á leið með sitt seinna barn, sem varð til þess að hún hlaut alvarlega grindargliðnun og þurfti í endurhæfingu. Í endurhæfingunni buðust henni sálfræðitímar, sem hún nýtti til að komast að því hvort sig langaði að leggja sálfræðina fyrir sig. Nú, ríflega tuttugu árum síðar, er hún framkvæmdastjóri Áfalla- og sálfræðimiðstöðvarinnar, formaður HAM félagsins og sinnir mikilvægu starfi til hjálpar þeim sem starfa hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og embætti Ríkislögreglustjóra, svo fátt eitt sé nefnt. Á unglingsárunum starfaði hún sem fyrirsæta í Evrópu, varð móðir ung og útskrifaðist sem leikkona en kvaddi loks fjalirnar fyrir fjölina sína, sálfræði.