Þegar sumarsólin var að vekja blómin sín að vori árið 2002 upplifði Þorbjörg Finnbogadóttir það sem allir foreldrar óttast mest; að missa barnið sitt. Sonur hennar, Magnús Freyr Sveinbjörnsson, var aðeins rétt rúmlega tvítugur og átti framtíðina fyrir sér þegar hann varð fyrir hrottalegri árás í miðbæ Reykjavíkur sem dró hann til dauða. Annar árásarmannanna gaf út bók fyrir nýliðin jól þar sem hann meðal annars lýsti árásinni á Magnús heitinn, sem Þorbjörg segir ekki aðeins hafa ýft upp sárin heldur sé Baldur að sverta minningu sonar hennar. Sé dómur Hæstaréttar lesinn megi sjá að lýsingarnar í bókinni passi engan veginn við það sem í raun gerðist.