Pastaréttir geta verið frábær tilbreyting á veturna í miðri viku þegar flestir vilja eitthvað einfalt, fljótlegt og bragðgott og svo er pasta hinn besti hádegismatur daginn eftir. Þá getur verið gott að elda stóran skammt svo allir geti tekið með sér í nesti daginn eftir. Hér höfum við bæði klassískar pastauppskriftir og af nýrri gerðinni líkt og franskt lauksúpupasta sem er innblásið af hinni klassísku frönsku lauksúpu. Frakkar elda súpuna oft að vetri til sem allra meina bót við kvefi og flensum en laukur er ríkur af C- og B-vítamínum ásamt járni. Heilnæmur og góður vetrarmatur.