Síðustu ár hefur farið meira fyrir því að fólk, og þá sér í lagi konur, hefji ADHD-greiningarferli á fullorðinsárum. Stella Rún Steinþórsdóttir er ein þeirra en hún segir það að fá loks greininguna hafa verið mikið gæfuspor í sínu lífi. Hún er í dag verkefnastjóri hjá Týndu stelpunum og heldur utan um verkefnið Sara – stelpa með ADHD sem á að stuðla að vitundarvakningu um ADHD í konum. Að verkefninu standa ásamt Stellu þær Sara Rós Guðmundsdóttir og Katla Margrét Aradóttir. Verkefnið varð til fyrir tveimur og hálfu ári síðan þegar þær sóttu sama áfanga í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. „Þar var okkur lagt fyrir að finna lausn á samfélagslegum vanda og nýta til þess samfélagslega nýsköpun. Fljótlega rákumst við á þá staðreynd að við værum allar með ADHD, seint greindar á fullorðinsárum, og áttum frekar sára reynslu að baki sökum þess hve lengi við höfðum barist áfram án þess að fá viðeigandi verkfæri og meðferð.“