Viðar Halldórsson félagsfræðingur fæddist í Reykjavík árið 1970 og menntaði sig í félagsfræði við Háskóla Íslands og University of Leicester á Englandi. Hann er með doktorspróf í félagsfræði og starfar sem prófessor við fagið við Háskóla Íslands. Jafnframt sinnir hann stöðu gestaprófessors í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík, er stundakennari við alþjóðlegt meistaranám í menningarstjórnun íþrótta (e. International CIES/FIFA Masters) og hefur sinnt ráðgjafarþjónustu fyrir íþróttastofnanir, íþróttafélög, landslið og félagslið í fjölbreyttum íþróttum hér á landi til fjölda ára. Frá aldamótum hefur hann skrifað fjölda pistla og haldið mörg hundruð fyrirlestra hér á landi sem og fjölda fyrirlestra víðs vegar í heiminum, allt frá Suður-Ameríku, í gegnum Bandaríkin og Evrópu til Japan.
Meginkjarni í starfi hans felst í að skoða, greina og rannsaka mátt hins félagslega umhverfis, sem er það ósýnilega afl sem umlykur fólk öllum stundum. Spurningar sem hann er að vinna við eru: Hvað er þetta ósýnilega afl? Hvaðan kemur það? Hvernig virkar það? Hvenær er það jákvætt og uppbyggilegt? Og hvenær er það neikvætt og skemmandi?