Í íslensku samfélagi er áhersla á atvinnuþátttöku mjög mikil og virði fólks oft metið út frá menntun og stöðu á vinnumarkaði. Það má til dæmis sjá á því að þegar fólk fer á mannamót er algengasta spurningin: „Hvað gerir þú?” Þegar fólk segist ekki vera á vinnumarkaðnum finnur það oft fyrir neikvæðum viðbrögðum fólks. Þetta segir Hrönn Stefánsdóttir, formaður atvinnu- og menntahóps Öryrkjabandalags Íslands, en hún var einn af fyrirlesurum málþings kjarahóps og atvinnu- og menntahóps ÖBÍ réttindasamtaka sem bar yfirskriftina „Ertu ekki farin að vinna?“ Á málþinginu var virði manneskjunnar tekið fyrir óháð þátttöku á vinnumarkaði og (van)mat á framlagi fatlaðs fólks sem getur ekki tekið þátt á vinnumarkaði. Þá var fjallað um inngildingu í atvinnu og hvernig hún birtist innan og utan vinnumarkaðar og áhrif kerfislægra hindrana fyrir atvinnuþátttöku fatlaðs fólks (svo sem tekjuskerðingar) og var megináherslan á fólk með ósýnilegar fatlanir.
Umsjón og texti: Salome Friðgeirsdóttir / Myndir: Alda Valentína Rós