Kara Elvarsdóttir er gift, tveggja barna móðir úr Garðabænum. Hún er með BSc-gráðu í sjúkraþjálfun og var að klára meistaranám í markaðsfræði við Bifröst. Í dag starfar hún sem sjúkraþjálfari hjá Kjarna þar sem hún er með einstaklingsmeðferðir í sjúkraþjálfun. Hjá Kjarna vinnur hún aðallega með konum sem búa við verki í baki og mjaðmagrind, verki á og eftir meðgöngu og með konum í starfsendurhæfingu eftir kulnun. Kara segist elska að taka vel á því í góðum hópi en hún er að þjálfa nokkrum sinnum í viku; bæði með hópa á eigin vegum og hjá Hreyfingu í sumar. Kara elskar að prjóna og baka og segist vera einstaklega heppin því hún elskar vinnuna sína. Blaðamaður fékk að heyra í Köru og forvitnast um hennar vinnu þar sem hún hjálpar fólki í endurhæfingu eftir barnsburð.