Anna Dóra Unnsteinsdóttir ber marga hatta eins og margar íslenskar konur. Hún er listakona, fagurkeri og náttúrubarn og starfar sem abstrakt listmálari og förðunarfræðingur í Englandi. Anna Dóra býr rétt fyrir utan London eða í Hampshire í Englandi og húsið hennar stendur við fallega götu í enskri sveit þar sem sólsetrið sést frá götunni og er undursamleg sjón. Húsið hæfir persónuleika hennar og ef blaðamaður vissi ekki betur væri hann handviss um að hún hefði farið í einhvern framkomuskóla ung að árum en ekki komið frá rótum kartöflubús á Þykkvabæ. Hún tók á móti blaðamanni með húsið fullt af kræsingum og bleikum búbblum. Viðtalið var fyrir vikið ennþá skemmtilegra með enskri sveitasælu og menningu beint í æð undir sól.