Tónlistarkonan Gréta Karen Grétarsdóttir ólst upp hjá einstæðri móður sem veitti henni ástríki en hafði sinn djöful að draga, alkóhólisma. Barnæskan var ekki alltaf auðveld og Gréta segist að mörgu leyti hafa verið umönnunaraðili móður sinnar, á meðan því hefði auðvitað átt að vera öfugt farið. Óttinn var gríðarlegur og kvíði fylgifiskur hans, hún óttaðist að vera tekin frá móður sinni en samt þráði hún að einhver myndi grípa í taumana og koma henni til bjargar. Það má segja að þetta hafi litað allt líf Grétu sem segist hafa átt erfitt með að finna hver hún nákvæmlega er en kannski hafi hún ekki séð skóginn fyrir trjánum. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Grétu sem vinnur nú að plötu og samdi nýverið við umboðsmann sem uppgötvaði Lady Gaga.