Hormónaraskandi efni eru ekki bara allt í kringum okkur. Þau eru líka í okkur og berast í okkur með mat og drykk, í gegnum húðina eða við innöndun. Sum eru eilífðarefni sem setjast að í vefjum líkamans en önnur eiga að hverfa úr líkamanum á innan við sólarhring. Styrkur margra er talinn haldast nokkuð jafn í okkur því við erum stöðugt útsett fyrir þeim í svipuðum mæli. Sunneva Halldórsdóttir, mastersnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hefur látið þessi mál sig varða allt frá því þegar efnafræðikennarinn hennar í framhaldsskóla kveikti áhuga hennar á efnafræði. Annars segir hún að áhugi á efnum, úr hverju hlutir eru og hvað þeir innihalda hafa alltaf blundað í sér.