Linda Rós Haukdal hefur alltaf haft marga bolta á lofti, unnið mikið og varla stoppað á milli verkefna. Henni hefur ætíð fundist gaman í vinnunni en segist jafnvel hafa notað vinnuna sem ákveðna flóttaleið eftir mörg áföll á lífsleiðinni. Allri vinnunni fylgdi líka fórnarkostnaður. Linda segist hafa fórnað heilsunni, barneignum og samböndum fyrir vinnuna og það sé í raun líklega lykillinn að því af hverju allt fór eins og það fór. Í nokkur ár hefur Linda reynt að eignast barn, án árangurs. Hún segist þó enn halda í vonina um að eignast barn og vonast eftir kraftaverki.