Linda Pétursdóttir rak Baðhúsið, heilsulind fyrir konur, í tuttugu ár, en sá sig tilneydda til að loka því árið 2014. Eftir áfallið í kringum lokunina fór Linda að læra heilsuþjálfun og í dag hjálpar hún konum að byggja upp sjálfstraust og láta af sjálfsniðurrifi. Hún segir að konurnar sem eru í þjálfun hjá henni tengi oft við hana því hún sé sjálf búin að fara í gegnum allan andskotann. Það hafi þó komið henni á þann góða stað í lífinu sem hún er á í dag. Allt snúist þetta um hvað við kjósum að hugsa og hvernig við ætlum að vinna okkur úr erfiðleikunum. Eitthvað betra bíði handan hornsins, svo framarlega sem við gefumst ekki upp á leiðinni.
