Rík barnamenning er mikilvæg ef byggja á gott samfélag enda erfa börnin vissulega heiminn. Það sem við sjáum og heyrum á okkar fyrstu árum hefur mótandi áhrif á okkur og því er vert að vanda vel allt það efni sem skapað er fyrir yngstu áheyrendurna. Guðný Ósk Karlsdóttir er 29 ára söngkona og danskennari að norðan sem er í dag búsett í Reykjavík. Hún hóf tónlistarnám á Akureyri aðeins átta ára gömul og fann fljótt ástríðu sína í bæði tónlist og dansi. Síðan á unglingsárum hefur hún unnið með börnum sem danskennari en einnig hefur hún komið að ýmsum fjölbreyttum verkefnum í sjónvarpi, leikhúsi og tónlist meðal annars sem danshöfundur á Sögur Verðlaunahátíð Barnanna, í Jólastundinni okkar og á fleiri stöðum. Guðný gaf nýverið út sína fyrstu barnaplötu sem ber það ævintýralega nafn Leitin að Regnboganum. Við fengum að forvitnast um það skemmtilega verkefni.