Sara, en það er hún gjarnan kölluð, er með fjölbreyttan bakgrunn, meðal annars úr dagskrárgerð, framleiðslu og skapandi skrifum ásamt því að hafa starfað sem flugfreyja. Hún er með BA gráðu í sviðshöfundanámi frá Listaháskóla Íslands og lagði stund á meistaranám í stafrænni stjórnun (e. digital management) í Hyper Island í Stokkhólmi, þaðan sem hún útskrifaðist fyrir nokkrum árum. Hún hefur unnið í sjónvarpi, leikhúsi, útvarpi og var um árabil meðlimur í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur. „Það var frekar fyndið þegar ég flutti fyrst til Svíþjóðar og þurfti að skrá mig í landið að þeim þótti ansi erfitt að skilja hvað ég gerði því það var svo fjölbreytt, ég passaði ekki í neinn af kössunum sem þau vildu haka í,“ segir hún og hlær. Í dag starfar hún í framleiðenda- og stjórnunarteymi í leikhúsi sem heitir Konträr og liggur á Södermalm.