Sigríður segir slysið á syni hennar vera það sem hefur mótað líf hennar mest. „Það er ólýsanlega erfitt að upplifa það að tvísýnt sé um líf barnsins manns. Ekkert sem á eftir kemur getur orðið erfiðara en það. Allt bliknar í samanburði. En þetta hefur líka mótað mig og okkur öll og auðveldar okkur að glíma við erfið verkefni og áföll. Mín skoðun er sú að fólk sem hefur upplifað svona áföll eigi auðveldara með að setja minni áföll í samhengi. „Það dó enginn, enginn slasaðist, börnin mín eru heilbrigð!,“ er eins konar mantra hjá mér þegar ég stend frammi fyrir erfiðleikum. Það er svo mikilvægt að geta brugðist rétt við, gera ekki of mikið úr málum og taka hluti ekki of mikið inn á sig.“