Aðalheiður Jacobsen rekur og á fyrirtækið Netparta ehf. sem sérhæfir sig í umhverfisvænni endurvinnslu bifreiða. Árið 2020 hlaut fyrirtækið verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Þótt greinilegt sé að Aðalheiður njóti starfs síns í botn hefur hún marga bolta á lofti. Hún á fjögur börn og þrjú barnabörn, stundar hestamennsku og útiveru og hefur m.a. keppt í rallycross þar sem hún bar sigur úr býtum. Fyrir rúmum tveimur árum flutti Aðalheiður úr dreifbýlinu og inn á Selfoss. Hún segir það hafa tekið dálítinn tíma að venjast því að búa aftur svona inni í bæ.