Bandaríski rithöfundurinn Taylor Jenkins Reid hefur sannarlega slegið í gegn síðustu ár með
dramatískum og hrífandi sögum sem draga lesendur inn í heim frægðar, ástar og leyndarmála.
Endurtekið þema í bókum hennar eru þær fórnir sem fólk færir þegar það eltir drauma sína. Hún
er þekkt fyrir það að skapa persónur sem eru svo raunverulegar að þær virðast lifa utan
bókanna – þannig að upplifunin er sú að verið sé að lesa sanna ævisögu frekar en skáldskap.
Taylor er fædd árið 1983 og býr í Los Angeles, borg sem hefur greinilega haft áhrif á skrif
hennar enda gerast margar sögurnar hennar í heimi kvikmynda, tónlistar eða íþrótta. Hún hóf
feril sinn með tilfinningaþrungnum skáldsögum um ást og sjálfsuppgötvun en þróaði síðar
einstakan stíl þar sem hún leikur sér að sannsögulegum frásagnaraðferðum, eins og í The
Seven Husbands of Evelyn Hugo og Daisy Jones & The Six. Bækurnar hennar hafa notið mikilla
vinsælda, verið þýddar á fjölmörg tungumál og margar þeirra hafa verið aðlagaðar fyrir
kvikmyndir og sjónvarp. Með einstökum hæfileika sínum til að skapa heillandi persónur og
sannfærandi frásagnir hefur hún skipað sér sess sem einn áhugaverðasti rithöfundur
samtímans.
