Salvör Nordal umboðsmaður barna kom brosandi til dyra þar sem hún tók á móti blaðamanni á skrifstofu embættisins í miðbænum. Dagurinn er heiðskír og fallegur en mjög kaldur. Við Salvör fáum okkur sæti við gluggann og erum með útsýni yfir Faxaflóann sem er einstaklega fallegur á að líta þennan sólríka dag. Síðar áttum við eftir að hittast í Vesturbænum þar sem hún tók á móti blaðamanni á sínu undurfagra heimili umkringd stórbrotinni myndlist og listaverkum. Tinni, hundurinn á heimilinu, íslenskur fjárhundur, virtist sérstaklega spenntur að fá gesti.
Salvör Nordal var skipuð af forsætisráðherra í embætti umboðsmanns barna árið 2017. Hún er með BA próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, M.Phil í samfélagslegu réttlæti frá Stirling háskóla í Skotlandi og doktorspróf í heimspeki frá Calgary háskóla í Kanada. Áður en hún tók við stöðu umboðsmanns barna starfaði hún sem forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og lektor í heimspeki við sama skóla. Salvör segist hafa mjög miklar áhyggjur af þróun mála er varða stöðu barna í landinu. Hún segir að það sé ljóst að við séum ekki að mæta börnum í miklum vanda. Þá er mun minna hlutfall íslenskra afburðanemenda miðað við nágrannalöndin, sem gefur til kynna að kerfið sé hvorki að þjóna þeim sem standa höllum fæti né þeim sem standa best. Jafnframt segist hún hafa fylgst með nokkrum málum eins og stjórnarskrármálinu, málum tengdum hruninu og svo núna í sínu embætti, og telji sig oft hafa séð stjórnmálamenn og aðra vera að endurtaka fyrri mistök.
Daglega glímir Salvör við heyrnarleysi á öðru eyra vegna heilaæxlis, en hennar stærsta áfall var þegar systir hennar Ólöf lést langt fyrir aldur fram af völdum krabbameins.
Umsjón og texti: Salome Friðgeirsdóttir
Myndir: Alda Valentína Rós
Förðun: Karen Petra Ólafsdóttir