Á 4. hæð í Smiðju, nýju skrifstofuhúsi Alþingis, tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á móti blaðamanni einn hlýjan og kyrran haustdag. Út um stóran glugga skrifstofunnar er útsýni yfir elstu tré Reykjavíkur og kaþólsku kirkjuna þar sem hún hefur iðkað sína trú síðan hún var barn. Það eru skiptar skoðanir á þessari nýju byggingu en sjálf er hún ánægð, bæði með stórbrotna hönnunina en einnig það að vera loks undir sama þaki og samstarfsfólkið úr öðrum flokkum. Því jafnvel þó þau séu oft á öndverðum meiði þá hafa þau sannarlega gott af því að drekka saman morgunbollann og ræða um hversdaginn á milli þess sem þau takast á um stóru málin. Þorgerður lét sig ekki dreyma um sæti á þingi í æsku heldur ætlaði hún að verða dýralæknir, eignast sex til sjö börn og setjast að í sveitinni sinni í Ölfusinu. Það er reyndar ennþá draumastarfið þó hún sé sátt í sínu og ætli sér ekki að hætta á meðan það er enn eitthvað sem hún brennur fyrir að breyta til batnaðar.