CYBER er framúrstefnulegt rafpoppdúó sem stofnað var af þeim Joe (hán) og Sölku Valsdóttur (hún) fyrir um tíu árum síðan. Sveitin hefur vakið mikla athygli síðan hún kom fram á sjónarsviðið, ekki síst sökum þess hversu meðlimir hennar eru óhrædd við að hugsa út fyrir kassann og ganga alla leið. Þau leyfa sér yfirgengilega stæla í klæðnaði og framkomu sem smella einstaklega vel saman við furðulegan tónlistarheim CYBER. Hljómsveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir breiðskífu sína VACATION árið 2020 og Kraumsverðlaunin fyrir breiðskífu sína HORROR árið 2017, auk þess sem hún hefur verið lofuð af gagnrýnendum og í alþjóðlegum fjölmiðlum. Þann 4. október sendi sveitin frá sér breiðskífuna SAD ;’( í gegnum plötuútgáfuna Marvaða og af því tilefni ákváðum við að heyra í þeim Sölku og Joe hljóðið.