Guðrún Helga Halldórsdóttir, eigandi verslunarinnar Nakano og stundakennari við japönskudeildina í Háskóla Íslands, ætlar að segja okkur frá uppáhaldsborginni sinni Kyoto í Japan. Guðrún er gift Bang An og eiga þau soninn Ágúst Yi sem er fjögurra ára en hann talar fjögur tungumál; íslensku, ensku, kínversku og er núna að læra japönsku. Hjónin kynntust sem námsmenn í Tokyo fyrir næstum tíu árum síðan en Bang An er frá Kína. Þegar þau áttu tíma og pening þá var ferðinni oftast heitið til Kyoto. Það er auðvelt að fara til Kyoto frá Tokyo með hraðlestinni, Shinkansen, en það tekur aðeins 2,5 klst. Einnig er hægt að fara þangað með rútu. Síðustu ár hafa þau deilt tíma sínum á milli Íslands og Kyoto í Japan en eiginmanni Guðrúnar var boðið að kenna við Ritsumeikan háskóla í Kyoto þar sem hann kennir íþróttamarkaðsfræði og rannsakar tengsl á milli lífshamingju og hreyfingar, meðal annars í samstarfi við Háskóla Íslands. „Í Kyoto fannst mér ég upplifa mikla sögu en borgin er ein af fáum sem slapp ágætlega úr seinni heimsstyrjöldinni og því má finna þar eldri arkitektúr en annars staðar í Japan. Þar eru einnig sumar af frægustu trúarlegu byggingum í Japan. Það sem hefur alltaf heillað okkur er stemningin í borginni og allur gómsæti maturinn sem borgin býður upp. Að byrja daginn á góðu kaffihúsi og leigja sér hjól og ferðast um borgina. Skoða söguleg hof og söfn, gæða sér á grænu tei og fá sér dýrindis kvöldmáltíð í miðbæ Kyoto. Ganga svo meðfram upplýstri Kamogawa ánni og enda síðan á japönsku baðhúsi eftir langan dag er uppskrift að hinum fullkomna degi að mínu mati. Þegar An bauðst síðan vinna við kennslu í Ritsumeikan í Kyoto fyrir ári síðan ákváðum við að grípa tækifærið og eiga lengri stundir í borginni.“
Umsjón: Salome Friðgeirsdóttir / Myndir: Úr einkasafni og af vef