Pernille Tönder fæddist og ólst upp í sveit í Danmörku og er yngst þriggja systkina. Foreldrar hennar skildu þegar hún var í kringum tíu ára og hitti hún föður sinn lítið eftir það. Þegar hún var fimmtán ára lést faðir hennar sem varð til þess að hún upplifði sig mikið eina sem barn. Móðir hennar lagði mikla áherslu á að eldri systkini hennar ættu ekki að passa hana en hún var sjálf látin passa yngri systkini sín mikið í sinni æsku. „Ég var alltaf mikið náttúrubarn. Hálfgerð strákastelpa og fannst gaman að dást að undrum náttúrunnar, grafa upp glerbrot, klifra í trjánum, reyna að sigla í ám á snjóþotu á sumrin og alls konar sem ég mátti nú sennilega ekki gera. Ég var mjög uppátækjasöm. Ég kláraði grunnskólann og fór svo í heimavistarskóla í tvö ár. Að því loknu fór ég í framhaldsskóla en ég átti aldrei gott með bóklegt nám svo ég hætti eftir tvo til þrjá mánuði og fór að vinna á hestabúgarði. Árið 1991 kom ég svo til Íslands til að vinna í sveit og heillaðist af landinu, fólkinu, náttúrunni, menningunni og hefðum og tengingu Íslendinga við gamla tímann þrátt fyrir hraða þróun í landinu.“