Ingeborg Andersen er móðir, ástkona, dóttir og systir. Hún býr ásamt manni sínum, Arnóri Sveinssyni, og eins árs dóttur þeirra, Vordísi. Á heimilinu þeirra við Krókatjörn er hundur og hænur. Hún lýsir heimili þeirra sem leynilegs undrastaðs sem er í korters fjarlægð frá Reykjavík. „Allt er eins og ég vil hafa það og ég nýt þess að lifa hægu og einföldu lífi með útsýni yfir Reykjavík, sjóinn, fjöllin og vötnin. Ég er hálfnorsk og ólst upp í Noregi fyrstu ellefu árin. Eftir það ólst ég upp á Seltjarnanesi. Eins og er starfa ég sem náttúrulæknir og býð upp á einstaklingsviðtöl þar sem við snertum á öllum hliðum lífsins sem hafa áhrif á heilsuna. Ég skoða manneskjuna út frá stóra samhenginu en ekki út frá einu líkamskerfi eða einu mataræði og svo framvegis. Ég er líka með jurtagöngur einu sinni í viku og fer með hópa um nágrenni Hvaleyrarvatns þar sem við skoðum þær lækningajurtir sem vaxa allt í kringum okkur. Ég get bara haldið svona göngur á meðan árstíðir leyfa svo ég reyni að gera mikið af þessu á sumrin.“