Sviðslistakonunni Auði B. Ástudóttur hafði alltaf dreymt um að búa í London og sá draumur rættist þegar hún komst inn í leiklistarnám í Royal Academy of Dramatic Art. Auður ólst upp á Grundarfirði og fór þaðan í Versló og hefur lengi haft áhuga á sviðslistum, ferðalögum og því að vera með vinum og fjölskyldu og borða góðan mat. Eftir að hún útskrifaðist úr leiklistaskólanum flutti hún aftur til Íslands og hér hefur hún unnið við sviðslistir og með ungu fólki í að verða fimmtán ár. London hefur alltaf átt stað í hjarta Auðar og hún heimsækir borgina nokkrum sinnum á ári ýmist tengt vinnu eða til að hitta vini. Eftirminnilegar eru dansferðir með nemendum sem hún kennir hjá Dansskóla Birnu Björns og Dýnamík sviðslistaskóla því hún elskar að kynna næstu kynslóð fyrir töfrum borgarinnar. Við fengum Auði til að segja okkur frá lífinu í London og deila með lesendum uppáhaldsstöðum í borginni.