Skiptar skoðanir eru á þátttöku Íslands í Eurovision þetta árið og hafa margir mótmælt því að Ísrael sé á meðal þátttökuþjóða í ljósi stríðsaðgerða þeirra fyrir botni Miðjarðarhafs. Söngvakeppni sjónvarpsins hefur þó verið á dagskránni síðustu tvö laugardagskvöld og úrslitakvöldið er yfirvofandi. Palestínski tónlistarmaðurinn Bashar Murad er einn þeirra sem tekur þátt í keppninni í ár og þó að óráðið sé hvort hann komist í úrslitin þegar þetta er skrifað þá hefur hann fundið fyrir miklum stuðningi og það er ljóst að margir binda vonir við það að hann beri sigur úr býtum. Sama hvernig fer er víst að hann hefur unnið hug og hjörtu fjölmargra Íslendinga sem og annarra Eurovision-aðdáenda um allan heim. Bashar er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að láta rödd sína heyrast á þessum stóra vettvangi.
Bashar Murad fæddist árið 1993 í Jerúsalem inn í fjölskyldu tónlistarfólks. Faðir hans, Said Murad, var stofnandi hinnar goðsagnakenndu palestínsku hljómsveitar „Sabreen“ eða „Hin þolinmóðu“ eins og nafnið myndi útleggjast á íslensku. „Tónlist Sabreen var hljóðheimur æsku minnar,“ segir Bashar sem minnist þess að faðir hans hafi borið hann á öxlunum á leiðinni í hljóðverið þar sem hann fékk að slíta barnsskónum, umvafinn sköpunargleði og hlýju. „Hljóðverið var minn leikvöllur og ég eyddi mörgum klukkustundum í að glamra á hljóðfærin sem þar var að finna og skapa alls konar ólíka heima. Það voru mikil forréttindi að fæðast inn í þessar kringumstæður og hafa fengið tónlistina í vöggugjöf því hana gat ég notað til þess að fá útrás fyrir allar þær tilfinningar sem fylgdu því að alast upp í Palestínu. Ég vissi að ég var heppinn hvað þetta varðaði því að þetta var ekki eitthvað sem allir höfðu.“ Flest lög Sabreen voru samin við texta palestínskra ljóðskálda, þeirra á meðal Mahmoud Darwish & Fadwa Tuqan. Í þeim birtist skýrt tregafullar tilfinningar kynslóðarinnar sem upplifði hernámið frá fyrstu hendi. „Strax á unga aldri kynntist ég fallegum ljóðum sem fjölluðu um upplifun palestínsku þjóðarinnar og það hafði mikil áhrif á mig og mína listsköpun.“
Hinn ungi Bashar fór ekki varhluta af því að heimurinn fyrir utan hljóðverið var ekki eins fallegur og innan þess. „Að alast upp í Jerúsalem undir hernámi þýddi að það var „eðlilegt“ að fara fram hjá eftirlitsstöðvum hersins á leiðinni í skólann og sjá hermenn, riffla og skriðdreka í hverfinu sínu. Það var eins og ég lifði í tveimur ólíkum heimum – annar þeirra var þessi öruggi heimur sem foreldrar mínar sköpuðu fyrir mig, fullur af ást og tónlist; og hinn þessi grái heimur fyrir utan. Þetta hafði eins og gefur að skilja mikil áhrif á mig og hvernig ég horfi á heiminn. Ég leyfði mér að dreyma stórt þegar ég var heima í örugga herberginu mínu en var þó alltaf meðvitaður um þær takmarkanir sem fylgdu hinum.“
Hann segir að það að búa undir hernámi hafi áhrif á allar hliðar lífsins jafnvel þó að maður sé ekki alltaf meðvitaður um það. „Þó það sé mjög mikið af stórkostlegri list sem kemur frá Palestínu eru tækifæri fyrir listamenn sem koma þaðan mjög takmörkuð og þeim fáir vegir færir til að koma list sinni á framfæri. Það er fyrir það fyrsta vegna eiginlegrar landamæravörslu en einnig formsatriða á borð við vegabréfsáritun og leyfisbréf. Ef maður er að ferðast á milli borga vegna vinnu þarf maður alltaf að huga að því hversu mikil umferð verður um eftirlitsstöðvarnar og jafnvel hvort þær eru opnar yfir höfuð.“
Bashar lét slíkar takmarkanir ekki skilgreina sig eða hafa áhrif á list sína. „Ég hef alltaf leitað eftir óhefðbundnum leiðum til þess að láta rödd mína heyrast vegna þess að það er það sem maður þarf að gera ef maður er frá Palestínu; maður verður að finna skapandi leiðir til þess að komast af. Einmitt þess vegna er ég afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að sýna list mína á þessum stóra vettvangi sem Söngvakeppnin er og það hefði ég aldrei getað ef ekki væri fyrir það að Íslendingar tóku mér opnum örmum. Þegar ég sá Ísland þjóta upp á topp á veðlistunum eftir að þátttaka mín var tilkynnt hlýjaði það mér að innstu hjartarótum.“ Hann segist þó alltaf finna fyrir samviskubiti þess sem komst af (e. survivors guilt) og þeirri tilfinningu að hann megi ekki vera of hamingjusamur. „Ég finn fyrir mikilli sektarkennd yfir því að ég sé að láta drauma mína rætast á meðan að þessar hörmungar dynja yfir þjóð mína. Meira en 28.000 manns hafa verið myrtir í Palestínu á síðustu mánuðum og það virðist sem svo að fólkið sem fer með völdin hafi engan áhuga á að stoppa þennan hrylling. Þó mér finnist í raun mjög absúrd að vera að keppa í Söngvakeppninni á þessum tíma þá líður mér á sama tíma eins og tónlist sé mín leið til að geta vakið athygli á þjáningunni. Ég trúi því að ég sé að nota þau þau tól sem mér hafa verið veitt til þess að reyna að hafa áhrif.“
Til að lesa áfram þarf að skrá sig í áskrift á Birtingur.is.