Nýlega gaf Rán Flygenring út myndasögu sem nefnist „Hvalaskýrslan“ en hún setur upp á auðskiljanlegu máli allt sem þú þarft að vita um hvalveiðar sem hafa nýlega verið mjög mikið í fjölmiðlum vegna mótmæla gegn þeim. Ég spyr Rán út í hennar listræna feril. „Ég hef alltaf teiknað mikið og notað myndmál til að tjá mig, útskýra og skilja hluti. Þetta var mjög eðlilegur hlutur á heimilinu þegar ég ólst upp. Foreldrar mínir eru bæði arkitektar og nota sjálf óspart blað og blýant til að hugsa sig í gegnum hluti og miðla hinu og þessu, sama hvort það er tengt vinnu eða bara einhverju hversdagslegu eins og að finna eitthvað í búðinni eða rata á nýjum stað.