Ég hitti Helenu Gylfadóttur á heimili systur hennar, Ingu Láru, sem hefur reynst henni sem stoð og stytta í gegnum erfiðasta tímabil lífs hennar. Þann 7. janúar síðastliðin greindist hún með meinvörp í hrygg, auk samfallsbrots í hryggjarlið, en meinvörpin reyndust vera út frá brjóstakrabbameini á 4 stigi sem var þá ógreint. Ólæknandi krabbamein var henni sagt, orð sem hún man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt því örskotsstundu hrundi veröld hennar og er allt í móðu eða minnileysi frá innlögninni þegar hún greinist með meinvörpin.