Í grónu og fallegu umhverfi í Grafarvoginum kíkjum við í heimsókn til Kristínar Pétursdóttur og Ólafs Más Stefánssonar, hér hafa þau búið síðan húsið var byggt fyrir 35 árum síðan. Þau hjónin búa í öðrum enda fjögurra reisulegra raðhúsa sem teiknuð voru árið 1986 af Teiknistofu Eðvarðs Guðmundssonar og Sigurðar Kjartanssonar. Við innkomu tekur á móti okkur dásamlegur furuilmur og hundurinn Lukka sem er alsæl með innlitið. Búið er að skreyta húsið hátt og lágt fyrir hátíðirnar með lifandi greni, jólaljósum og gömlu sem nýju jólaskrauti í hvítum og dökkum tónum sem skapar hlýlegt andrúmsloft.