Sem á himni er splunkunýr söngleikur sem nú gengur fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu. Hann er byggður á samnefndri sænskri bíómynd sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna árið 2004. Sagan gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, og hver hefur innsýn í annars gleði og sorgir. Þegar heimsfrægur hljómsveitarstjóri, á hátindi ferils síns, sest óvænt að í þorpinu til að draga sig út úr skarkala heimsins þykir ýmsum tilvalið að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Þessi maður á sér sársaukaþrungin leyndarmál, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Hrífandi og átakamikil saga um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina.