Sól og blíða ríkti þegar við lögðum leið okkar úr bænum austur í Biskupstungur til að hitta listakonuna Aðalheiði Valgeirsdóttur á stórri og bjartri vinnustofu hennar á bæ sem stendur rétt ofan við Laugarás. Þegar okkur bar að garði var hún að vinna stór og litrík olíumálverk fyrir einkasýningu. Aðeins ofar í bæjarstæðinu stendur reisulegt hús hennar og eiginmanns hennar Erlendar Hjaltasonar. Húsið er glæsilegt og svo sannarlega einstakt en útgangspunkturinn við hönnun þess var stórfenglegt útsýnið. Þau hjón tóku á móti okkur og sýndu okkur svæðið og húsið en fyrst settumst við Aðalheiður niður á vinnustofunni og ræddum myndlistina hennar.